Elísa til Danmerkur eða Svíþjóðar?

Elísa Viðarsdóttir í leik með Val.
Elísa Viðarsdóttir í leik með Val. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elísa Viðarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu og fyrirliði Íslandsmeistara Vals, hefur æft með bæði Danmerkurmeisturunum og Svíþjóðarmeisturunum undanfarna daga.

Orri Rafn Sigurðarson, leiklýsandi hjá Viaplay, segir á Twitter-síðu sinni að Elísa hafi æft með bæði HB Köge, sem varð danskur meistari í vor, og Rosengård, sem varð sænskur meistari á dögunum.

Rasmus Christiansen, sambýlismaður Elísu og leikmaður Vals, er frá Danmörku og hefur sagt að hann hafi áhuga á að leika á ný í heimalandi sínu áður en knattspyrnuferillinn sé á enda. Það er því ekki útilokað að þau séu bæði að skoða málin með að leika einhvers staðar við Eyrarsundið en Köge er skammt sunnan við Kaupmannahöfn og Rosengård er frá Malmö sem er rétt handan brúarinnar yfir sundið.

Rasmus lék á sínum tíma með Lyngby sem er eitt af úthverfum Kaupmannahafnar en þjálfari þar er Freyr Alexandersson, fyrrverandi þjálfari kvennaliðs Vals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert