Spænski knattspyrnumaðurinn Gonzalo Zamorano sem lék með ÍBV á síðasta keppnistímabili verður áfram í 1. deild karla þótt Eyjamenn hafi farið upp.
Hann samdi í dag við Selfyssinga um að leika með þeim næstu tvö árin. Zamorano er 26 ára gamall og leikur ýmist sem kantmaður eða framherji. Hann kom fyrst til Hugins á Seyðisfirði árið 2017 og skoraði 16 mörk í 2. deildinni þegar liðið vann sér sæti í 1. deild í fyrsta og eina skiptið í sögu félagsins.
Zamorano lék með Víkingum í Ólafsvík 2018 og skoraði þá 10 mörk í 1. deildinni. Hann spilaði með Skagamönnum í úrvalsdeildinni 2019 en náði ekki að skora í 20 leikjum. Hann sneri aftur til Ólafsvíkur og skoraði þá 11 mörk í 20 leikjum í 1. deildinni.
Zamorano kom síðan til Eyjamanna fyrir síðasta tímabil. Hann missti af helmingi þess vegna meiðsla en spilaði 10 leiki í 1. deildinni og skoraði í þeim þrjú mörk.