Konur stýra skútunni í Hafnarfirði

Katrín Ómarsdóttir, Guðrún Jóna Kristjánsdóttir og Agnes Þóra Árnadóttir í …
Katrín Ómarsdóttir, Guðrún Jóna Kristjánsdóttir og Agnes Þóra Árnadóttir í tilefni undirskriftanna. Ljósmynd/Brynjólfur Jónsson

Guðrún Jóna Kristjánsdóttir og Katrín Ómarsdóttir munu stýra kvennaliði Hauka í knattspyrnu á komandi keppnistímabili. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Guðrún Jóna stýrði liðinu á síðustu leiktíð en hún hefur starfað hjá knattspyrnudeild Hauka frá árinu 2017. 

Katrín var í þjálfarateymi KR í 1. deildinni á síðustu leiktíð en hún á að baki 119 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað 40 mörk. Þá lék hún 69 A-landsleiki og skoraði í þeim tíu mörk.

Agnes Þóra Árnadóttir verður Guðrúnu og Katrínu til aðstoðar en hún verður styrktarþjálfari liðsins. 

Okkar markmið er skýrt. Við ætlum að vera með öflugt lið á næsta tímabili sem mun berjast um að komast í deild þeirra bestu,“ sagði Halldór Jón Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Haula. 

„Við ætlum okkur að styrkja liðið með ákveðnum leikmönnum og viljum m.a. fá reynslubolta og góða karaktera sem miðla áfram til okkar yngri leikmanna,“ sagði Halldór ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert