Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, þvertók fyrir það að Mikael Anderson, leikmaður AGF í Danmörku, væri erfiður í samskiptum á fjarfundi með blaðamönnum í Búkarest í Rúmeníu í dag.
Íslenska liðið undirbýr sig nú fyrir leik gegn Rúmeníu í J-riðli undankeppni HM 2022 sem fram fer á Steaua-vellinum í Búkarest á fimmtudaginn kemur en Mikael var ekki valinn í íslenska landsliðshópinn að þessu sinni.
„Mikael er í veseni með hnéð á sér og þetta eru álagsmeiðsli,“ sagði Arnar.
„Hann er ekki 100% klár og það tekur hann tíma að ná sér aftur eftir leiki. Við erum með aðra leikmenn í sömu stöðum sem eru 100% klárir og þess vegna var Mikael ekki valinn í þetta skiptið,“ bætti Arnar við.
Arnar Þór var spurður að því á fundinum hvort Mikael væri erfiður í samskiptum en því hafði verið skotið fram í hlaðvarpsþættinum Dr. Football á dögunum.
„Mikael er alls ekki erfiður í samskiptum. Hann er mjög hreinskilinn sem er ekkert nema jákvætt. Leikmenn eru margir hverjir aldir þannig upp að þeir eigi að láta lítið fyrir sér fara og segja sem minnst.
Hann er ófeiminn við að segja sínar skoðanir á hlutunum og er mjög heiðarlegur í sínum samskiptum. Hann þekkir líkamann sinn út og inn og það er fagnaðarefni þegar leikmenn eru hreinskilnir með það,“ bætti Arnar við.