„Markmiðið hjá mér er fyrst og fremst að vera fastamaður í landsliðinu,“ sagði Ísak Bergmann Jóhannesson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, á fjarfundi með blaðamönnum í Búkarest í Rúmeníu í dag.
Ísland mætir Rúmeníu í J-riðli undankeppni HM 2022 á Steaua-vellinum í Búkarest á fimmtudaginn kemur.
Ísak skoraði sitt fyrsta landsliðsmark á dögunum gegn Armeníu á Laugardalsvelli en hann er einungis 18 ára gamall.
„Ég veit að ég er ungur og allt það en ég finn það hjá sjálfum mér að ég er tilbúinn að gera mig gildandi með landsliðinu,“ sagði Ísak.
„Það getur tekið eitt ár, tvö ár eða jafnvel styttri tíma en ég tek einn leik fyrir í einu og einbeiti mér að því að standa mig vel þegar ég fæ tækifærið.“
Karlalandsliðið hefur legið undir harðri gagnrýni undanfarið en Ísak telur liðið vera á réttri leið undir stjórn Arnars Þórs Viðarssonar.
„Þetta er búin að vera risabrekka en maður lærir mest í þeim og vonandi er kominn betri taktur í þetta hjá okkur,“ sagði Ísak.
„Þegar nýtt lið er í smíðum þarf að búa til ákveðna tengingu á milli manna og mér finnst hún vera að koma.
Addi talar oft um stór skref hjá leikmönnum og við erum að taka þau núna. Það mun kannski taka einhvern smá tíma en þetta lið getur orðið mjög gott, ég er sannfærður um það,“ bætti Ísak við.