Byrja væntanlega aftur á Dalvík

Úr leik KA og FH á Greifavellinum í september síðastliðnum.
Úr leik KA og FH á Greifavellinum í september síðastliðnum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Karlalið KA í knattspyrnu bíður í ofvæni eftir nýjum aðalvelli þar sem grasið á Greifavellinum kemur venjulega afar illa undan sumri og hann því lítt brúklegur stóran hluta hvers sumars.

Á síðasta tímabili gat KA ekki byrjað að spila á honum fyrr en í síðari hluta júlí-mánaðar. Þurfti liðið því að spila fyrstu fjóra heimaleiki sína á Dalvíkurvelli, sem er gervigrasvöllur.

Ingvar Már Gíslason, formaður KA, sagðist í samtali við Vísi í dag búast við því að það sama verði uppi á teningnum næsta sumar.

„Liðið ætti að vera komið með fína og flotta aðstöðu árið 2023,“ sagði Ingvar við Vísi.

Nýr völlur KA verður gervigrasvöllur sem verður lagður í staðinn fyrir Greifavöll. Bæjaryfirvöld á Akureyri ætla að komast til móts við KA með því að flýta framkvæmdum nýja vallarins.

„Þetta er bara spurning um tímalínuna. Það eru allir sammála um með hvaða hætti á að gera hlutina,“ bætti Ingvar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert