Færð ekkert gefins í þessu

Albert Guðmundsson skoraði tvívegis gegn Liechtenstein í október.
Albert Guðmundsson skoraði tvívegis gegn Liechtenstein í október. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hef aðeins þurft að bíða eftir tækifærinu með landsliðinu og núna er það undir mér komið að sýna það og sanna að ég get hjálpað liðinu,“ sagði Albert Guðmundsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, á fjarfundi með blaðamönnum í Búkarest í Rúmeníu í dag.

Ísland mætir Rúmeníu í J-riðli undankeppni HM 2022 á Steaua-vellinum í Búkarest á fimmtudaginn kemur.

Albert, sem er 24 ára gamall, er á meðal reyndustu leikmanna í ungum landsliðshóp Íslands en hann á að baki 27 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað sex mörk.

„Menn hafa forfallast af ýmsum ástæðum og það gefur öðrum leikmönnum tækifæri til þess að stíga upp og sýna hvað þeir geta,“ sagði Albert.

„Þú færð ekkert gefins í þessum fótboltaheimi og ég reyni bara að gera mitt allra besta þegar ég fæ tækifæri, bæði innan og utan vallar.

Ég lít ekki á sjálfan mig sem einhvern leiðtoga í hópnum og hlutverk mitt hefur ekki breyst mikið þrátt fyrir að margir reynslumiklir leikmenn séu fjarverandi,“ sagði Albert.

Albert Guðmundsson, Sveinn Aron Guðjohnsen og Andri Fannar Baldursson fagna …
Albert Guðmundsson, Sveinn Aron Guðjohnsen og Andri Fannar Baldursson fagna marki gegn Liechtenstein. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leggja ekki árar í bát

Ísland á ennþá tölfræðilega möguleika á því að komast áfram í umspil um laust sæti á HM 2022 en liðið er með 8 stig í fimmta og næstneðsta sæti riðilsins.

„Á meðan möguleikinn er til staðar þá munum við ekki gefast upp. Það er alveg sama á móti hverjum við spilum og hvað sé undir, við mætum alltaf til leiks með sama hugarfarið. Við erum ekki að fara leggja árar í bát núna.

Svo lengi sem við vinnum þá er ég ánægður og það skiptir mig ekki máli hvar ég spila. Mér líður best í stöðunni fyrir aftan framherjann en ef landsliðsþjálfararnir vilja frekar nota mig á kantinum þá er það ekkert vandamál,“ bætti Albert við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert