Breiðablik náði í sitt fyrsta stig í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld er liðið heimsótti Kharkiv til Úkraínu. Illa gekk hjá báðum liðum að skapa sér virkilega gott færi og varð 0:0-jafntefli niðurstaðan.
Heimakonur í Kharkiv voru meira með boltann í fyrri hálfleik á meðan Breiðablik reyndi að sækja hratt þegar tækifæri gáfust. Liðunum gekk hinsvegar illa að skapa sér færi.
Breiðablik fékk nokkur álitleg skyndisóknafæri en fór illa að ráði sínu þegar liðið nálgaðist mark heimakvenna. Hinum megin varðist Breiðablik vel og Telma Ívarsdóttir hafði ekki mikið að gera í markinu. Kristín Dís Árnadóttir var oftar en ekki réttur maður á réttum stað og bjargaði vel.
Seinni hálfleikur spilaðist svipað og sá fyrri; Kharkiv var meira með boltann en Breiðablik varðist mjög vel. Í þau skipti sem Breiðablik náði skyndisóknum vantaði hinsvegar upp á gæði og hafði Gamze Yaman í marki Kharkiv ekki mikið að gera.
Að lokum sættust liðin á jafnan hlut eftir markalaust jafntefli. Þau mætast aftur á fimmtudag í næstu viku á Kópavogsvelli.