Knattspyrnudeild FH hefur tilkynnt um ráðningu á Sigurbirni Hreiðarssyni sem nýjum aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla.
Sigurbjörn þekkir vel til Ólafs Jóhannessonar þjálfara liðsins, þar sem þeir unnu í sameiningu til tveggja Íslandsmeistaratitla árin 2017 og 2018, auk tveggja bikarmeistaratitla árin 2015 og 2016.
Sigurbjörn þjálfaði Grindavík á síðasta ári í Lengjudeildinni en þar á undan hafði hann verið aðstoðarþjálfari Vals frá 2014-2019.
„Það er mikil ánægja innan FH að fá hinn öfluga Sigurbjörn inn í teymið, og bindur félagið miklar vonir við störf hans í framtíðinni,“ sagði í tilkynningu frá knattspyrnudeild FH.
Í tilkynningunni var einnig greint frá ráðningu á Belganum Robin Adriaenssen sem styrktar- og þolþjálfara og framlengingu á samningi Fjalars Þorgeirssonar markmannsþjálfara.
„Robin Adriaenssen hefur verið ráðinn til að leiða uppbyggingu á styrktar og þolþjálfun knattspyrnudeildar félagsins ásamt uppbyggingu á gagnagrunni sem mun nýtast félaginu á næstu misserum og bæta starf deildarinnar til muna.
Mikil ánægja er að hafa fengið Robin til félagsins enda reynslumikill þolþjálfari. Robin hefur áður starfað hjá Lokeren, NAC Breda, Wisla Krakow og Esbjerg. FH bindur miklar vonir við störf Robin fyrir meistaraflokk félagsins og niður í yngri flokka félagsins sem munu einnig njóta krafta hans,“ sagði um Adriaenssen.
„Fjalar Þorgeirsson hefur skrifað undir framlengingu á samningi sínum og mun áfram leiða þróun markvarða meistaraflokks karla.
Fjalar hefur starfað hjá FH frá 2020 og mikil ánægja er með störf hans hjá félaginu,“ sagði um framlengingu Fjalars.