Fyrirliði KR-inga í Garðabæinn?

Óskar Örn Hauksson gæti söðlað um á næstunni eftir fimmtán …
Óskar Örn Hauksson gæti söðlað um á næstunni eftir fimmtán ár í Vesturbænum. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki

Óskar Örn Hauksson, fyrirliði karlaliðs KR í knattspyrnu, gæti söðlað um á næstunni og gengið til liðs við Stjörnuna í Garðabæ. Það er fótbolti.net sem greinir frá þessu.

Sóknarmaðurinn er samningslaus eftir að samningur hans við KR rann út um miðjan október en Garðbæingar hafa boðið honum nýjan samning.

KR-ingar hafa einnig boðið honum nýjan samning en tilboðið úr Garðabæ er talsvert betra en tilboðið í Vesturbænum, að því er fram kemur í frétt fótbolta.net.

Óskar, sem er 37 ára gamall, hefur leikið með KR-ingum undanfarin fimmtán tímabil en hann er uppalinn hjá Njarðvík.

Hann er leikjahæsti leikmaður KR í efstu deild frá upphafi með 296 leiki og þá er hann einnig markahæsti leikmaður í sögu KR í efstu deild með 73 mörk. Óskar á jafnframt leikjamet efstu deildar þar sem hann hefur spilað samtals 348 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert