Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson verður samningslaus næsta sumar en hann er samningsbundinn AZ Alkmaar í hollensku úrvalsdeildinni.
Albert, sem er 24 ára gamall, hefur verið í herbúðum hollenska liðsins frá árinu 2018 en hann hefur skorað tvö mörk ó níu byrjunarliðsleikjum í hollensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Sóknarmaðurinn er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Rúmeníu og Norður-Makedóníu í lokaleikjum liðsins í undankeppni HM 2022 á næstu dögum.
„Það eina sem ég er að hugsa um er að klára tímabilið með sæmd,“ sagði Albert á fjarfundi með blaðamönnum í Búkarest í Rúmeníu í gær.
„Ég hef rætt við klúbbinn um nýjan samning en þær viðræður hafa gengið hægt og það er því óljóst hvað gerist næsta sumar. Ég er bara að hugsa um að spila vel fyrir AZ Alkmaar og vonandi gerist eitthvað gott næsta sumar.
Ég er alveg opinn fyrir því að vera áfram í Hollandi en ég mun klárlega setjast niður og skoða alla mína möguleika þegar þar að kemur. Ég hef heyrt af einhverjum áhuga hér og þar en það er ekkert fast í hendi,“ bætti Albert við.