Ída Marín Hermannsdóttir hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild Vals. Valur stóð uppi sem Íslandsmeistari í haust.
Ída Marín er 19 ára sóknartengiliður sem hefur síðastliðin tvö sumur leikið fyrir Val eftir að hafa komið frá Fylki. Hún hefur samtals leikið 57 leiki í efstu deild og skorað í þeim 13 mörk.
Þá hefur hún spilað 27 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim níu mörk.
„Ída Marín átti frábært tímabil síðastliðið sumar og við hlökkum til þess að sjá hana vaxa enn frekar á Hlíðarenda,“ sagði í tilkynningu frá knattspyrnudeild Vals.
Eftir að Íslandsmeistaratitilinn var í höfn hefur Valur framlengt samninga hvers leikmannsins á fætur öðrum auk þess að bæta við sig nokkrum leikmönnum og því morgunljóst að félagið hyggst verja titil sinn á næsta ári.