Arnar Grétarsson, þjálfari karlaliðs KA í knattspyrnu, hefur að undanförnu látið í sér heyra varðandi bágborin aðstöðumál hjá félaginu.
Arnar ræddi málin við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun í dag og lögðu þeir þar meðal annars út af viðtali Valtýs Björns við Höllu Björk Reynisdóttur, forseta bæjarstjórnar Akureyrar, í þættinum í gær. Valtýr Björn sagði hana hafa verið í nokkurri vörn í því viðtali.
„Auðvitað er þetta erfið staða fyrir þetta fólk að vera í en mér finnst þetta bara sorgleg staða fyrir íþróttafélögin í bænum. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er alltaf bara ákveðið „budget“ og menn þurfa að velja og hafna.
Það sem kannski kristallast hér á Akureyri er að þeir hafa valið að setja peningana í aðra hluti en afreksíþróttirnar og reyna að verja það á einhvern máta. Auðvitað eru menn alltaf að reyna að gera sitt besta, ég trúi ekki öðru. Það er enginn að segja neitt annað,“ sagði Arnar.
Fleiri en Arnar hafa látið í sér heyra að undanförnu. Gagnrýndi Jónatan Magnússon, þjálfari karlaliðs KA í handknattleik, til að mynda slæma aðstöðu hjá félaginu.
„Það sem er í raun og veru verið að segja, bæði ég og Jonni [Jónatan Magnússon] og bara allir þeir sem eru í þessum félögum hér í þessum afrekisíþróttum, er það að okkur finnst í rauninni ekki nógu mikið sett í þær.
Þá erum við bara að bera saman það sem gengur og gerist annars staðar á landinu, ekkert endilega Reykjavíkursvæðinu heldur bara heilt yfir. Þar er verið að setja mun meira í þessa hluti,“ bætti Arnar við.
„Auðvitað er þetta alltaf val þessara stjórnmálamanna, í hvað þeir vilja setja peninginn. Eins og þið [Valtýr Björn og Halla Björk] töluðuð um í gær er ansi langt síðan það hefur verið gert eitthvað fyrir KA ef við tökum það bara sem dæmi.
Meira að segja líka fyrir Þór, það er orðið ansi langt síðan það var gert eitthvað fyrir þá. Aðstaðan fyrir þessi tvö lið er ekki boðleg, það er bara staðreynd,“ sagði hann einnig.