Arna til liðs við Val

Arna Sif Ásgrímsdóttir í leik með Þór/KA í sumar.
Arna Sif Ásgrímsdóttir í leik með Þór/KA í sumar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði og reyndasti leikmaður Þórs/KA í knattspyrnunni, er gengin til liðs við Íslandsmeistara Vals.

Arna kannast við sig á Hlíðarenda því hún lék áður með Val í tvö ár, 2016 og 2017. Hún hefur annars leikið með Þór/KA allan sinn feril á Íslandi og er leikjahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins í efstu deild en hún hefur einnig leikið með Gautaborg í Svíþjóð, Verona á Ítalíu og Glasgow City í Skotlandi en hún varð skoskur meistari með síðastnefnda liðinu í vor.

Arna er 29 ára gömul og á að baki 227 leiki í efstu deild hér á landi, þar af 197 fyrir Þór/KA, og hefur skorað í þeim 40 mörk. Þá hefur hún leikið 12 A-landsleiki og skorað eitt mark ásamt því að hún lék 40 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Þór/KA hefur þar með misst tvo af sínum sterkustu leikmönnum því Karen María Sigurgeirsdóttir gekk til liðs við Breiðablik í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert