Knattspyrnudeild FH hefur samið við vinstri bakvörðinn Harald Einar Ásgrímsson um að leika með karlaliði félagsins næstu þrjú árin. Haraldur Einar kemur frá Fram, þar sem hann er uppalinn.
Hefur hann leikið stórt hlutverk hjá Fram undanfarin þrjú tímabil, sér í lagi á liðnu tímabili þar sem liðið vann B-deildina með stæl og komst þannig upp í úrvalsdeild á ný.
„Það er mikið gleðiefni fyrir okkur FH-inga að fá Harald í Kaplakrika enda hluti af stefnu félagsins að fá unga öfluga leikmenn til að spila í hvítu treyjunni. Velkominn í Kaplakrika Halli!“ sagði í tilkynningu frá FH á samfélagsmiðlum félagsins.