Góð prófraun fyrir lokakeppnina

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska liðsins.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska liðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er hægt að líta á leikinn gegn Japan sem ágætis prófraun fyrir lokakeppnina á Englandi næsta sumar,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á fjarfundi með blaðamönnum í dag.

Þorsteinn tilkynnti leikmannahóp sinn fyrir landsleikagluggann í nóvember í hádeginu í dag en Ísland mætir Japan í vináttulandsleik í Almere í Hollandi áður en liðið flýgur til Kýpur þar sem það mætir Kýpur í C-riðli undankeppni HM 2023.

„Knattspyrnusamband Japans hafði samband við okkur og þeir eru að fara spila við Holland mánudaginn 29. nóvember. Það hentaði okkur því vel að lengja gluggann og spila þennan leik í Hollandi,“ sagði Þorsteinn.

„Ég er ekki búinn að ákveðna það nákvæmlega hvernig ég mun nálgast leikinn á móti Japan en það er alveg ljóst að ég mun gefa einhverjum leikmönnum tækifæri í þessum leik.

Við munum leggja hann upp eins og við séum að spila alvöru leik en mögulega verð ég búinn að ákveða einhverjar skiptingar fyrirfram, eitthvað sem ég hef ekki gert farandi inn í þessa keppnisleiki.

Við förum í þennan leik til að vinna hann og spila sem best til að fá sem mest út úr honum,“ bætti Þorsteinn við á fjarfundi með blaðamönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert