Margir leikmenn að banka á landsliðsdyrnar

Fanndís Friðriksdóttir og Mist Edvardsdóttir eru á meðal leikmanna sem …
Fanndís Friðriksdóttir og Mist Edvardsdóttir eru á meðal leikmanna sem landsliðsjálfarinn hefur hug á að skoða frekar. mbl.is/Hari

„Það er fullt af leikmönnum sem ég hef ekki valið ennþá enda er samkeppnin bara það mikil,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á fjarfundi með blaðamönnum í dag.

Þorsteinn tilkynnti í dag leikmannahóp sinn fyrir komandi landsliðsverkefni gegn Japan og Kýpur en hann valdi 23 leikmenn í hópinn.

„Ég er búinn að velja 33 leikmenn síðan ég tók við liðinu í janúar og það er ágætis tala,“ sagði Þorsteinn.

„Það eru þarna leikmenn sem maður hefur áhuga á að skoða, til dæmis Barbára Sól Gísladóttir, Ásta Eir Árnadóttir, Fanndís Friðriksdóttir, Mist Edvardsdóttir og Arna Sif Ásgrímsdóttir svo einhverjar séu nefndar.

Það er fyrst og fremst samkeppni sem veldur því að þessir leikmenn hafa ekki verið valdir hingað til. Það er hins vegar góð spurning hvort maður kíki ekki frekar á þær ef þær halda áfram að gera vel og banka á dyrnar,“ bætti Þorsteinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert