Óskar Örn Hauksson, leikjahæsti leikmaður úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, er genginn til liðs við Stjörnuna og hefur samið við Garðabæjarfélagið til tveggja ára.
Stjarnan skýrði frá því rétt í þessu að samkomulagið við Óskar væri í höfn.
Óskar, sem er 37 ára gamall, hefur leikið 23 keppnistímabil í meistaraflokki frá því hann hóf að spila fjórtán ára gamall með meistaraflokki Njarðvíkur árið 1999. Hann hefur leikið samfleytt í úrvalsdeildinni frá árinu 2004, fyrstu þrjú árin með Grindavík og með KR frá 2007.
Hann er bæði leikja- og markahæsti leikmaður KR í sögunni í efstu deild með 296 leiki og 73 mörk fyrir félagið.
Samtals hefur Óskar leikið 348 leiki í deildinni og skorað 85 mörk. Hann sló þar leikjamet Birkis Kristinssonar (321 leikur) snemma á síðasta ári og hann er nú níundi markahæsti leikmaðurinn í sögu deildarinnar.