Knattspyrnudeild ÍA hefur tilkynnt að þeir Árni Snær Ólafsson og Hallur Flosason séu báðir búnir að skrifa undir nýja samninga og munu því leika áfram með uppeldisfélagi sínu á næsta tímabili.
Nýir samningar beggja renna nú út að loknu næsta keppnistímabili, undir lok ársins 2022.
Báðir urðu þeir svo fyrir erfiðum meiðslum á síðasta tímabili. Árni Snær sleit hásin í leik gegn FH og náði því aðeins að spila fyrstu þrjá deildarleikina í sumar.
Hallur spilaði átta leiki en handarbrotnaði illa um mitt sumar og gat því ekki tekið frekari þátt á síðasta tímabili, þegar ÍA bjargaði sér frá falli á ævintýralegan hátt.
Bæði Árni Snær, sem er þrítugur, og Hallur, sem er 28 ára, hafa allan sinn feril leikið með ÍA.
„Góðar fréttir fyrir liðið að þessir reynslumiklu leikmenn verði áfram í okkar herbúðum,“ sagði í tilkynningu knattspyrnudeildar ÍA á samfélagsmiðlum í dag.