Ísland vann öruggan sigur á Liechtenstein, 3:0, í undankeppni Evrópumóts 21-árs landsliða karla í knattspyrnu í Eschen í dag.
Bræðurnir Kristian Nökkvi og Ágúst Eðvald Hlynssynir skoruðu tvö fyrstu mörkin og Brynjólfur Willumsson það þriðja en þau komu öll á fyrsta hálftíma leiksins.
Íslenska liðið er þá komið með sjö stig eftir fyrstu fjóra leiki sína í riðlinum. Grikkland er með 11 stig í efsta sæti en hefur leikið fimm leiki og Portúgal er með 9 stig eftir þrjá leiki. Kýpur er með 7 stig eins og Ísland en eftir þrjá leiki. Grikkir unnu Hvíta-Rússa 2:0 í dag en leikur Kýpur og Portúgals fer fram í kvöld.
Kristian Nökkvi Hlynsson, 17 ára leikmaður Ajax í Hollandi, kom Íslandi yfir á 15. mínútu þegar hann fékk sendingu frá Hákoni Arnari Haraldssyni, 18 ára leikmanni FC Köbenhavn í Danmörku, inn í vítateiginn hægra megin og skaut af öryggi í vinstra hornið, 0:1.
Ísland bætti við marki á 25. mínútu. Eftir sókn upp hægra megin fékk Ágúst Eðvald Hlynsson boltann hægra megin í vítateignum frá Hákoni Arnari og skoraði með föstu skoti, 0:2. Bræðurnir Kristian og Ágúst sáu því um að skora fyrstu tvö mörk leiksins.
Á 31. mínútu kom þriðja markið. Brynjólfur Willumsson fékk boltann á vítateigslínunni hægra megin og skoraði með fallegu skoti efst í markhornið fjær, 0:3.
Liechtenstein átti sitt fyrsta markskot á 36. mínútu þegar Philipp Gassner skaut beint úr aukaspyrnu en Hákon Rafn Valdimarsson varði örugglega. Fram að því var um algjöra einstefnu að marki Liechtenstein að ræða.
Staðan var 3:0 Íslandi í hag í hálfleik. Ísland sótti látlaust frá byrjun síðari hálfleiks en gekk illa að finna glufur á varnarmúr heimastráka sem vörðust vel og skipulega.
Á 64. mínútu gerði Davíð Snorri Jónasson þjálfari þrjár breytingar á liði Íslands. Sævar Atli Magnússon, Kristall Máni Ingason og Viktor Örlygur Andrason komu inn á fyrir Kolbein Þórðarson, Hákon Arnar Haraldsson og Kristian Nökkva Hlynsson.
Sævar Atli fékk fyrsta alvörufæri Íslands í seinni hálfleik á 79. mínútu en Raffael Loosli markvörður Liechtenstein varði vel frá honum af stuttu færi. Rétt á eftir fékk Kristall Máni sendingu í gegnum vörnina og átti hörkuskot sem Loosli varði vel.
Tvær breytingar í viðbót voru gerðar á liði Íslands á 81. mínútu þegar Bjarki Steinn Bjarkason og Orri Steinn Óskarsson komu inn á fyrir Brynjólf Willumsson og Atla Barkarson.
Þung pressa á lokakaflanum skilaði ekki marki og lokatölur því 3:0.
Lið Íslands:
Mark: Hákon Rafn Valdimarsson (Elfsborg).
Vörn: Valgeir Valgeirsson (HK), Finnur Tómas Pálmason (KR), Valgeir Lunddal Friðriksson (Häcken), Atli Barkarson (Víkingur R.)
Miðja: Ágúst Eðvald Hlynsson (Horsens), Kolbeinn Þórðarson (Lommel), Karl Friðleifur Gunnarsson (Víkingur R.)
Sókn: Kristian Nökkvi Hlynsson (Ajax), Brynjólfur Willumsson (Kristiansund), Hákon Arnar Haraldsson (FC Köbenhavn)
Staðan í riðlinum: Portúgal 9 stig, Grikkland 8, Kýpur 7, Ísland 4, Hvíta-Rússland 3, Liechtenstein 0.