„Erum að koma úr erfiðum skafli“

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari á blaðamannafundinum í Skopje í dag.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari á blaðamannafundinum í Skopje í dag. Ljósmynd/Robert Spasovski

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir liðið áfjátt í að enda undankeppnina fyrir HM 2022 á jákvæðum nótum eftir erfiða undanfarna mánuði innan sem utan vallar.

„Við erum að koma úr erfiðum skafli og það er rosalega gott fyrir alla að þetta hafi verið jákvæður leikur, jákvæð frammistaða og jákvæð úrslit í Rúmeníu. Við förum í leikinn á morgun til að gera nákvæmlega það sama.

Það er eitthvað sem við höfum talað um, bæði í gær og í morgun. Við viljum enda þetta á mjög góðum nótum. Við förum inn í þennan leik líkt og við gerðum gegn Rúmeníu og alla aðra leiki, til þess að vinna,“ sagði Arnar Þór á blaðamannafundi í Skopje í dag.

Hann sagðist líkt og leikmennirnir hafa verið sáttur við markalausa jafnteflið gegn Rúmeníu á fimmtudagskvöld en þrátt fyrir það hafi öllum hlutaðeigandi fundist sem liðið hefði getað tekið öll stigin þrjú.

„Við vorum ánægðir með varnarleikinn heilt yfir, það var jákvætt að halda hreinu og Rúmenarnir voru í vandræðum með að brjóta okkur niður. Það var helst eftir einstaklingsmistök hjá okkur eða eftir horn sem þeim tókst það. Við sköpuðum okkur 4-5 færi og vorum svekktir að vinna ekki leikinn.

Við vorum ánægðir með stig í leiknum en það jákvæðasta við tilfinninguna eftir leikinn gegn Rúmeníu var að það var ákveðið svekkelsi í leikmannahópnum að hafa ekki náð í öll þrjú stigin. Það er í rauninni merki um að leikmönnum liðsins líður vel og þeir séu að taka skref fram á við,“ bætti Arnar Þór við.

Reynum að eyðileggja fyrir ykkur

Íslenska liðið hefur í raun ekki að neinu að keppa á meðan Norður-Makedónía tryggir sér annað sæti J-riðilsins með sigri á morgun.

„Við gerum okkur grein fyrir því að andstæðingurinn er öflugur og að spila mjög mikilvægan leik,“ sagði Arnar Þór en bætti því við að leikmenn Íslands væru þó vel mótíveraðir fyrir leikinn.

„Þegar þú ert með hóp af fagmannlegum leikmönnum þá ertu alltaf mótíveraður í alla leiki. Við erum með ungan hóp, nýja leikmenn, og því eru þessir leikir mjög mikilvægir í þróun liðsins. Það skiptir ekki máli þótt við eigum ekki séns á öðru sætinu. Við erum samt hungraðir í að vinna leikinn.

„Við óskum ykkur alls hins besta en við munum reyna að eyðileggja teitið fyrir ykkur á morgun,“ sagði Arnar Þór svo við norðurmakedónska blaðamenn á fundinum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert