Hef ekki spáð mikið í leikjametið

Birkir Bjarnason á blaðamannafundinum í Skopje í dag.
Birkir Bjarnason á blaðamannafundinum í Skopje í dag. Ljósmynd/Robert Spasovski

Birkir Bjarnason, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segist ekki pæla mikið í landsleikjametinu sem hann mun að öllum líkindum slá þegar liðið mætir Norður-Makedóníu í lokaleik undankeppni HM 2022 ytra á morgun.

Birkir hefur leikið 104 landsleiki og er þar með búinn að jafna met Rúnars Kristinssonar sem hafði staðið frá árinu 2004.

Með því að spila á morgun slær Birkir því metið. Hann er þó fyrst og fremst einbeittur á leikinn sjálfan og vill halda áfram að hjálpa til við að þróa nýtt lið í rétta átt.

„Við erum mest einbeittir á þessa þróun sem er í gangi. Við leikmenn höfum fundið það að við erum á góðri leið en við þurfum að fara að breyta þessu í sigra líka.

Ég hef ekki mikið spáð í þetta leikjamet, við sjáum bara hvað gerist. Ég þarf að spila leikinn fyrst,“ sagði Birkir á blaðamannafundi í Skopje í dag.

Íslenska liðið á ekki möguleika á umspilssæti fyrir HM og því lítil pressa á liðinu fyrir lokaleikinn. Þrátt fyrir það sagði Birkir að liðið vildi standa sig vel í leiknum á morgun.

„Við erum mjög mótíveraðir í þennan leik, við erum ekki sáttir við stöðuna í riðlinum og erum klárir í að sýna að við getum gert betur. Við erum með marga nýja leikmenn og erum að byggja upp nýtt lið.

Það mun taka tíma og við höfum ekki verið sáttir með úrslitin í leikjum okkar. Við erum klárir að sýna það að við erum á réttri leið og við hlökkum til leiksins,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert