Birkir Bjarnason landsliðsfyrirliði í knattspyrnu sem sló leikjamet A-landsliðs karla í dag þegar hann lék með liðinu gegn Norður-Makedóníu í Skopje kveðst vera tilbúinn til að halda áfram með landsliðinu á næsta ári.
Birkir lék sinn 105. landsleik í dag og sló með því sautján ára gamalt leikjamet Rúnars Kristinssonar.
„Það var synd að tapa þessum leik. Ég er stoltur af þessum árangri og þetta er stórt fyrir mig og mína fjölskyldu. Í leiknum var margt sem við hefðum getað bætt í fyrri hálfleik. Við vorum kannski ekki alveg ánægðir með hann en við vorum þéttir og reyndum að vinna í því. Mér fannst við gera mun betur þegar við komum út í síðari hálfleikinn og spiluðum hörku seinni hálfleik," sagði Birkir við RÚV eftir leikinn.
Spurður hvort úrslitin sýndu muninn á liðunum sagði Birkir svo ekki vera. „Nei, alls ekki. Þetta er lið sem er búið að spila lengi saman en við erum með rosalega mikið af nýjum leikmönnum. Við setjum þetta í reynslubankann og höldum áfram að þróa okkar leik. Ég efast ekki um að þetta lið eigi nóg inni og framtíðin sé ótrúlega björt," sagði Birkir.
Þegar hann var spurður af RÚV um framhaldið hjá sjálfum sér, og hvort hann yrði aftur í íslensku landsliðstreyjunni svaraði Birkir því ákveðið: „Já, já, ég er ekki að fara að hætta. Ég er ungur ennþá!“