Finnst þeir ekkert frábærir

Jón Dagur Þorsteinsson á fleygiferð í kvöld.
Jón Dagur Þorsteinsson á fleygiferð í kvöld. Ljósmynd/Robert Spasovski

„Já, hún var allt í lagi,“ sagði Jón Dagur Þorsteinsson um eigin frammistöðu í 1:3-tapi Íslands gegn Norður-Makedóníu í undankeppni heimsmeistaramótsins í fótbolta í kvöld. Jón Dagur skoraði mark Íslands er hann jafnaði í 1:1 í seinni hálfleik.

„Auðvitað var fyrri hálfleikur erfiður eftir að við fengum markið á okkur svona snemma. Við byrjuðum seinni hálfleikinn vel og unnum okkur vel inn í leikinn en svo var þetta brekka eftir annað markið þeirra,“ sagði Jón Dagur við RÚV.

„Auðvitað eru þeir búnir að spila lengi saman og eru með fullt af góðum leikmönnum. Mér finnst þeir samt ekkert frábærir. Við erum á okkar vegferð og við verðum að halda áfram og þá munum við gera betur á móti liði eins og Norður-Makedóníu.“

Jón Dagur fagnaði framan í stuðningsmenn Norður-Makedóníu þegar hann skoraði markið, en mikil læti voru í stúkunni. „Það var fyrst og fremst skemmtilegt að spila í þessu andrúmslofti. Það var allt undir hjá þeim. Fagnið var skemmtilegt, en það var fyrst og fremst skemmtilegt að spila í þessu andrúmslofti.“

Hann segir spennandi tíma fram undan hjá íslenska liðinu, sem er það yngsta í Evrópu um þessar mundir. „Við erum með ungt og nýtt lið og það eru spennandi tímar fram undan. Þetta verður skemmtilegra með tímanum,“ sagði Jón Dagur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert