„Að Ísak fái tvö gul spjöld og þar af leiðinni rautt skrifum við í reynslubankann,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari í fótbolta, í samtali við fjölmiðla eftir 1:3-tap Íslands gegn Norður-Makedóníu ytra í undankeppni HM í kvöld.
Ísak Bergmann Jóhannesson fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt í seinni hálfleik. „Hann hefur fullan rétt á að gera mistök eins og aðrir. Svona mistök munu gera þessa stráka að enn betri leikmönnum á næstu mánuðum. Strákarnir læra mest á að spila svona leiki þar sem er mikið undir hjá öðru liðinu,“ bætti Arnar við.
Hann varði einnig Elías Rafn Ólafsson markvörð liðsins en Gianni Alisoki kom Norður-Makedóníu yfir snemma leiks er hann slapp inn fyrir vörn Íslands og skoraði með föstu skoti á nærstöngina, framhjá Elíasi í markinu.
„Fyrsta markið kom því við náðum ekki að stoppa vinstri kantinn hjá þeim. Það kemur hlaup í framhjá Stefáni. Hann þrumaði boltanum það fast og hátt á nær að það var ómögulegt fyrir markmanninn að verja þetta,“ sagði Arnar.