Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, hefur gefið út jóladagatal sem inniheldur alls 48 fótboltaspjöld með myndum og fróðleik um íslenskar landsliðskonur fyrr og nú.
Í dagatalinu er talið niður til jóla með núverandi leikmönnum kvennalandsliðsins, bæði reyndari og yngri og efnilegri leikmönnum, auk fyrrverandi goðsagna landsliðsins.
Framleiðsla, hönnun og efnisöflun var í höndum Berglindar Ingvarsdóttur og Þorbjargar Helgu Ólafsdóttur.
Hugmyndin var einnig Berglindar og Þorbjargar Helgu, en þær bjuggu til dagatal með 24 bestu fótboltakonum í heimi fyrir jólin 2020, sem var hugsað sem fjáröflun fyrir dætur þeirra sem spila í yngri flokkum Þróttar úr Reykjavík.
Með því að festa kaup á jóladagatalinu gefst eigendum færi á að taka þátt í leik sem heitir „Byrjunarliðið“ þar sem fjöldi vinninga er í boði.
Allar nánari upplýsingar um dagatalið og leikinn er að finna á heimasíðu KSÍ.