Norður-Makedónía hafði betur gegn Íslandi í lokaumferð J-riðils undankeppni HM 2022 í knattspyrnu karla í Skopje í kvöld og tryggði sér með 3:1-sigri annað sæti riðilsins, sem gefur umspilssæti fyrir HM.
Heimamenn hófu leikinn af gífurlegum krafti. Eftir að hafa átt tvær fínar marktilraunir snemma leiks skoraði Ezgjan Alioski úr lang sísta skotfærinu.
Aleksandar Trajkovski átti þá laglega sendingu inn fyrir á Alioski sem var í afskaplega þröngu færi í vítateignum en þrumaði boltanum einfaldlega í nærstöngina og í netið, 1:0.
Norður-Makedónar voru áfram við stjórn það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og fengu nokkur góð tækifæri til þess að bæta við marki en auðnaðist það ekki.
Að vísu skoraði Darko Churlinov á 40. mínútu eftir að hann fylgdi eftir þrumuskoti Alioski sem Elías Rafn Ólafsson í marki Íslands varði til hliðar.
Markið var tafarlaust dæmt af vegna rangstöðu. VAR skoðaði atvikið vel og lengi og komst að lokum að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið að dæma rangstöðu. Í endursýningu sást að Churlinov var afar nálægt því að vera réttstæður, hugsanlega var það aðeins handarkrikinn á honum sem var fyrir innan.
Staðan því 1:0, Norður-Makedónum í vil, í leikhléi.
Síðari hálfleikur fór öllu rólegar af stað en á 54. mínútu jafnaði Ísland metin upp úr þurru.
Ísak Bergmann Jóhannesson átti þá frábæra fyrirgjöf frá hægri, beint á kollinn á Brynjari Inga Bjarnasyni sem skallaði boltann til hliðar á Jón Dag Þorsteinsson sem renndi boltanum framhjá Stole Dimitrievski í marki Norður-Makedóníu af stuttu færi, 1:1.
Skömmu síðar slapp Sveinn Aron Guðjohnsen í gegn eftir góða sendingu Alberts Guðmundssonar en Darko Velkovski náði að renna sér fyrir skotið á ögurstundu. Íslenska liðið vildi fá dæmda hendi og vítaspyrnu á Velkovski en ekkert var dæmt.
Á 65. mínútu náðu Norður-Makedónar forystunni á ný. Íslenska liðinu gekk þá illa að hreinsa boltann frá, Alioski náði skoti, það fór í varnarmann og Alioski tók annað skot sem fór líka af varnarmanni, barst til Elif Elmas sem mokaði boltanum í netið af stuttu færi, 2:1.
Á 79. mínútu fékk Ísak Bergmann sitt annað gula spjald og þar með rautt og því lék Ísland einum færri það sem eftir lifði leiks.
Á 86. mínútu gerði Elmas svo endanlega út um leikinn. Hann fékk þá boltann í vítateignum, komst framhjá Brynjari Inga og náði góðu vinstri fótar skoti sem fór í stöngina og inn, 3:1.
Það reyndust lokatölur og annað sæti J-riðils því Norður-Makedóna.
Norður-Makedónar voru með tögl og hagldir lungann úr leiknum og sigurinn því að lokum sanngjarn.
Ísland hafnar í fimmta og næstneðsta sæti riðilsins, sæti fyrir ofan Liechtenstein.
Í leiknum í dag átti íslenska liðið ekki mikinn möguleika stærstan hluta hans, en um tíu mínútna skeið í síðari hálfleik, um það leyti sem það jafnaði metin, litu dagsins ljós góðir spilkaflar þar sem liðið skapaði sér færi, en betur og um lengra skeið má ef duga skal.