Tvær breytingar á liði Íslands – Birkir slær leikjametið

Birkir Bjarnason slær landsleikjamet karla í dag.
Birkir Bjarnason slær landsleikjamet karla í dag. Ljósmynd/Alex Nicodim

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hefur tilkynnt byrjunarliðið fyrir lokaleik liðsins gegn Norður-Makedóníu í undankeppni HM 2022 sem fer fram ytra og hefst klukkan 17.

Arnar Þór gerir tvær breytingar á liðinu sem byrjaði í markalausa jafnteflinu gegn Rúmeníu.

Guðmundur Þórarinsson kemur inn í vinstri bakvörðinn fyrir Ara Frey Skúlason, sem meiddist snemma leiks gegn Rúmeníu og er ekki í leikmannahópnum í dag af þeim sökum.

Þá kemur Birkir Már Sævarsson inn í hægri bakvörðinn fyrir Alfons Sampsted og spilar sinn 103. landsleik.

Birkir Bjarnason fyrirliði leikur sinn 105. landsleik í dag og slær þar með met Rúnars Kristinssonar, sem lék 104. landsleiki á árunum 1987 til 2004.

Byrjunarlið Íslands (4-3-3):

Markvörður: Elías Rafn Ólafsson

Varnarmenn: Birkir Már Sævarsson, Brynjar Ingi Bjarnason, Daníel Leó Grétarsson, Guðmundur Þórarinsson

Miðjumenn: Ísak Bergmann Jóhannesson, Birkir Bjarnason (fyrirliði), Stefán Teitur Þórðarson

Sóknarmenn: Albert Guðmundsson, Sveinn Aron Guðjohnsen, Jón Dagur Þorsteinsson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert