„Ég er ekki ánægður, það breytist aldrei eftir tapleiki,“ var það fyrsta sem Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, sagði á blaðamannafundi eftir 1:3-tap Íslands gegn Norður-Makedóníu á útivelli í kvöld.
Arnar var sáttari við seinni hálfleikinn en þann fyrri, en íslenska liðið pressaði nokkuð á heimamenn í stöðunni 1:1, áður en Norður-Makedónía komst aftur yfir.
„Fyrri hálfleikurinn var erfiður og við fengum á okkur færi. Það var erfitt að halda boltanum innan liðsins. Við spiluðum betur í seinni hálfleik og vorum betri aðilinn þegar þeir komast í 2:1. Markið datt þeirra megin og eftir það var þetta erfitt, sérstaklega eftir rauða spjaldið,“ sagði Arnar, en Ísak Bergmann Jóhannesson fékk rautt spjald í seinni hálfleik.
Arnar viðurkennir að íslenska liðið hafi ætlað sér stærri hluti í riðlinum, en tveir sigrar og níu stig reyndist raunin. „Við vorum með meiri væntingar og vildum berjast um annað sætið. Eftir á að hyggja var Norður-Makedónía hinsvegar með næstbesta liðið í riðlinum. Það er hægt að sjá að þeir voru saman í 5-6 vikur fyrir EM í sumar. Við verðum að leggja mikið á okkur til að komast á sama stað og Norður-Makedónía.“