Orri Hlöðversson á sem formaður Íslensks toppfótbolta, ÍTF, sæti í stjórn Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ.
Í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun í dag greindi þáttastjórnandinn Valtýr Björn Valtýsson frá því að Orri hefði setið stjórnarfund KSÍ á dögunum þar sem hann hefði viljað ræða málefni framkvæmdastjóra KSÍ, Klöru Bjartmarz. Þar hefði formaður KSÍ, Vanda Sigurgeirsdóttir, sagst hafa vilja taka það mál upp á næsta fundi, fundi sem Orri var síðan ekki boðaður á.
„Ég hef heyrt þetta allt saman Valtýr og þetta hljómar kannski ekki sérstaklega vel. Af því að ég er svo lítill samsæriskenningamaður þá held ég að þetta hafi ekki verið neitt hannaður „prósess“.
Það er alveg rétt hjá þér að ég vildi bara ræða þetta. Ég er ekkert búinn að gleyma því að við erum búin að vera í alveg gríðarlegum mótbyr og erfiðleikum út af þessum málum sem komu upp núna í lok sumars og ekki þarf að fjölyrða neitt um í sjálfu sér. Þetta er bara þung byrði og erfið,“ sagði Orri í þættinum í dag.
„Síðan er farið í þessar aðgerðir og ég tók virkan þátt í þeim, að menn öxluðu ábyrgð og að við tækjum öll þátt í því að endurreisa þetta orðspor og koma fótboltanum, sérstaklega landsliðinu, aftur á beinu brautina. Partur af því er bara að rýna alla ferla, rýna hvað gerðist, hvað fór úrskeiðis og hvað má bæta.
Eins og komið hefur fram eru starfshópar í þeim verkefnum þar sem störf okkar allra verða væntanlega skoðuð, okkar þáttur í þessu ferli. Ég hef viljað halda þessari umræðu á lofti inni í stjórninni. Skiljanlega er nýtt stjórnarfólk ekki alveg jafn meðvitað um ferilinn. Auðvitað veit það af honum og hefur kynnt sér hann en hefur ekki tekið þátt í honum.
Þar sem ég er einn af þeim sem sitja áfram finnst mér mikilvægt að halda honum til haga, að við þurfum sem stjórn og sem hreyfing að taka þetta mál og vinna það alveg ofan í kjölinn, núllstilla okkur gagnvart umhverfinu og finna okkar fjöl aftur.
Það gerist ekki nema með opinni umræðu um málið og um störf okkar allra sem einstaklinga. Ég fer ekkert ofan af því. Í þessari stjórn, sem er núna kölluð bráðabirgðastjórn en er að sjálfsögðu bara fullgild stjórn og gerir það sem hún vill gera, vil ég halda þessari umræðu á lofti,“ bætti hann við.
„Þú nefnir þarna fund um daginn, ég vil taka það fram að ég hef verið boðaður á marga fundi í KSÍ síðastliðið ár og ég vil nú meina að þarna hafi nú bara einhver mistök átt sér stað. Það var nú aðallega það að ég átti ekki heimangengt á fundinn hvort sem var. En það virðist hafa misfarist þetta fundarboð,“ sagði Orri einnig.
Valtýr Björn benti þá á að til þess að Orri hefði ekki fengið fundarboð hefði líklega þurft að fjarlægja hann af lista yfir netföng stjórnar. Orri sagði að hugsanlega hefði eitthvað klikkað í tölvupósti hans sjálfs og að hann teldi sjálfur að það væri enginn maðkur í mysunni þótt hann hefði ekki fengið skýringu á því að hann hefði ekki verið boðaður á fundinn.
„Ég vil ekki vera að lesa of mikið í þetta. Ég hef ekki fengið 100 prósent skýringu á þessu enn þá en ég verð að segja að ég er svo „ligeglad“ með þessa hluti að ég er ekki einu sinni búinn að krefjast upplýsinga sem geta varpað einhverju ljósi á þetta,“ svaraði Orri.
Nýjasta þáttinn af Minni skoðun má hlusta á í heild sinni hér.