Varnarmaðurinn reyndi Guðmann Þórisson er genginn í raðir Kórdrengja, sem leika í næstefstu deild í knattspyrnu karla hér á landi.
Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í gær.
Guðmann, sem er 34 ára, kemur frá FH þar sem hann fékk ekki nýjan samning að loknu síðasta tímabili.
Hann á að baki 183 leiki í efstu og næstefstu deild hérlendis auk þess að hafa leikið um skeið sem atvinnumaður í Noregi og Svíþjóð með Nybergsund og Mjällby.
Þá á Guðmann einn A-landsleik að baki og lék á sínum tíma 15 leiki fyrir yngri landslið Íslands.
„Mér leist langbest á að koma hingað og fá að taka þátt í þessu ævintýri sem hér hefur verið í gangi, metnaðurinn heillaði mig mikið,“ sagði Guðmann í tilkynningu Kórdrengja.
Þar sagði einnig: „Guðmann hafði úr nokkrum tilboðum að velja, bæði úr efstu og næstefstu deild, en Kórdrengir urðu fyrir valinu. Kórdrengir eru gríðarlega spenntir fyrir komu Guðmanns og eru miklar vonir bundnar við hann.“