Silas Songani, landsliðsmaður frá Simbabve, hefur skrifað undir samning við Vestra og mun leika með karlaliði félagsins í knattspyrnu á komandi tímabili.
Songani, sem er 32 ára gamall vængmaður, á 11 landsleiki að baki fyrir Simbabve og lék síðast með landsliðinu árið 2018 þó hann hafi síðast verið í leikmannahópnum í mars á þessu ári.
Hann kemur frá FC Platinum í heimalandinu og er fyrrum liðsfélagi Nicolaj Madsen, lykilmanns Vestra, en þeir léku saman hjá SönderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni á árum áður.
„Silas er fyrrum liðsfélagi Nicolaj Madsen hjá SönderjyskE í dönsku efstu deildinni og lætur Nicolaj mjög vel af honum, Silas sé snöggur og áræðinn kantmaður sem geti skorað mörk.
Við bjóðum Silas innilega velkominn og hlökkum til að sjá hann í búningi Vestra!“ sagði í tilkynningu knattspyrnudeildar Vestra.
Lið Vestra mun á næsta tímabili leika í næstefstu deild hér á landi þriðja árið í röð. Á síðasta tímabili hafnaði liðið í 5. sæti deildarinnar og komst alla leið í undanúrslit Mjólkurbikarsins.