Níu stig í tíu leikjum og tveir sigurleikir, báðir gegn Liechtenstein, var uppskera íslenska karlalandsliðsins í undanriðli heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Lokaleikurinn, gegn Norður-Makedóníu í Skopje í gær, tapaðist 3:1.
Þrjú jafntefli, gegn Armeníu og Norður-Makedóníu heima og gegn Rúmeníu úti, öll eftir mikla uppstokkun á íslenska liðinu, sem fór í gang af óvæntum ástæðum í haust. Auk þess sem margir leikmenn forfölluðust vegna meiðsla á árinu.
Arnar Þór Viðarsson notaði 36 leikmenn í þessari undankeppni, þar af 32 í byrjunarliðinu sem aldrei var eins skipað. Gríðarleg viðbrigði frá blómaskeiði liðsins þegar það var saga til næsta bæjar ef liðsskipan var breytt á milli leikja.
Leikurinn í Skopje í gær var opinn fram á lokamínúturnar þegar Elif Elmas tryggði makedónskan sigur með sínu öðru marki í leiknum. Þá höfðu möguleikar íslenska liðsins á að jafna metin á ný minnkað verulega eftir að Ísak Bergmann Jóhannesson fékk sitt annað gula spjald á 79. mínútu og var þar með rekinn af velli. Ísak mun þar með hefja Þjóðadeild UEFA næsta sumar í eins leiks banni.
Ezgjan Alioski kom Norður-Makedóníu yfir með hörkuskoti strax á 7. mínútu leiksins.
Jón Dagur Þorsteinsson skoraði mark Íslands og jafnaði metin í 1:1 á 54. mínútu. Hans annað mark fyrir A-landsliðið og það fyrsta í mótsleik. Ísak sendi boltann inn í vítateiginn, Brynjar Ingi Bjarnason skallaði boltann niður á markteiginn þar sem Jón Dagur kom á ferðinni ásamt Birki Bjarnasyni, var ákveðnari en fyrirliðinn og sendi boltann í netið.
Elif Elmas kom heimamönnum í 2:1 á 65. mínútu og innsiglaði síðan sigurinn á 86. mínútu, 3:1.
Norður-Makedóníumenn fögnuðu ákaft, enda tryggði sigurinn þeim sæti í umspili á kostnað Rúmena sem sitja eftir í þriðja sæti riðilsins.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.