Tap gegn tíu Grikkjum

Kolbeinn Þórðarson skoraði mark Íslands í 1:1 jafntefli í fyrri …
Kolbeinn Þórðarson skoraði mark Íslands í 1:1 jafntefli í fyrri leik liðanna í haust. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska U21-árs landsliðið í knattspyrnu karla þurfti að sætta sig við 0:1 tap fyrir Grikklandi þegar liðin mættust í Trípólí þar í landi í undankeppni EM 2023 í dag. Ísland lék nánast allan síðari hálfleikinn einum manni fleiri og klúðraði auk þess vítaspyrnu.

Baráttan var í algleymingi í fyrri hálfleik þar sem bæði lið spiluðu þéttan og góðan varnarleik.

Upp úr fyrsta og eina almennilega færinu skoruðu Grikkir hins vegar á 36. mínútu. Ioannis Botos slapp þá í gegn eftir langa sendingu fram. Finnur Tómas togaði Botos niður innan vítateigs áður en hann náði skotinu og vítaspyrna því dæmd.

Giannis Michailidis, varnarmaður Grikkja, steig á vítapunktinn og skoraði með því að senda Jökul Andrésson í marki Íslands í rangt horn.

Talsverður hiti var í leikmönnum og litu sex gul spjöld dagsins ljós í fyrri hálfleik. Fjögur þeirra fengu Íslendingar og Grikkir fengu tvö.

Ekki var meira skorað í hálfleiknum og Grikkir leiddu því með einu marki þegar flautað var til leikhlés.

Strax í upphafi síðari hálfleiks dró til tíðinda. Georgios Kanellopoulos braut þá á Viktori Örlygi Andrasyni við vítateigslínuna, hugsanlega innan teigs, og fékk fyrir vikið sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Skömmu síðar fékk Bjarki Steinn Bjarkason gott skotfæri innan vítateigs en þrumaði yfir markið.

Íslenska liðið átti eftir þetta færi í talsverðum erfiðleikum með að brjóta niður varnarmúr Grikkja, eða allt þar til á 69. mínútu þegar laglegt samspil endaði með því að brotið var á Hákoni Arnari Haraldssyni innan vítateigs.

Fyrirliðinn Brynjólfur Willumsson steig á vítapunktinn en þrumaði boltanum í utanverða stöngina og þaðan fór boltinn aftur fyrir endamörk.

Íslenska liðið reyndi hvað það gat að finna jöfnunarmark en reyndist það erfitt.

Varamaðurinn Kristall Máni Ingason fékk besta tækifærið til þess, sannkallað dauðafæri á annarri mínútu uppbótartíma, en Kostas Tzolakis í marki Grikkja varði skot hans af stuttu færi stórkostlega.

Fleiri urðu færin ekki og eins marks tap því niðurstaðan.

Grikkir fara með sigrinum á topp D-riðils þar sem liðið er með 14 stig að loknum sex leikjum. Portúgal kemur þar á eftir í 2. sæti með 12 stig en úr fjórum leikjum; með fullt hús stiga.

Ísland er áfram í 4. sæti riðilsins með 7 stig eftir fimm leiki.

Grikkland U21 1:0 Ísland U21 opna loka
90. mín. Kristall Máni Ingason (Ísland U21) á skot sem er varið +2 Dauðafæri! Eftir mikinn darraðadans í teignum berst boltinn til Kristals Mána sem er einn á auðum sjó en Tzolakis ver meistaralega af stuttu færi!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert