Knattspyrnumaðurinn Sólon Breki Leifsson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, aðeins 23 ára að aldri.
„Skórnir komnir á hilluna!! Smá steikt en spennandi tímar framundan! Samt alltaf í boltanum!“ skrifaði Sólon Breki á Instagram-aðgangi sínum í gærmorgun.
Hann er uppalinn hjá Breiðabliki og lék sína fyrstu meistaraflokksleiki á ferlinum í Kópavoginum sumarið 2015. Ári síðar var hann lánaður til Vestra, sem lék þá í C-deild, og skoraði átta mörk í 11 leikjum.
Fyrir tímabilið 2018 gekk hann til liðs við Leikni úr Reykjavík og lék með því undanfarin fjögur tímabil.
Alls á hann að baki 91 leik í efstu þremur deildunum hér á landi, þar sem hann skoraði alls 36 mörk.