Knattspyrnumaðurinn Ari Freyr Skúlason hefur ákveðið að leggja landsliðsskóna á hilluna. Þetta tilkynnti hann á samfélagsmiðlinum Twitter í dag.
Ari Freyr, sem er 34 ára gamall, er samningsbundinn Norrköping í Svíþjóð en hann lék sinn fyrsta A-landsleik árið 2009.
Alls lék 83 A-landsleiki fyrir Ísland en hann var í lykilhlutverki með liðinu á EM 2016 í Frakklandi sem og á HM 2018 í Rússlandi.
Ari Freyr er fjórði leikmaður karlalandsliðsins á stuttum tíma sem leggur landsliðsskóna á hilluna en þeir Kári Árnason, Hannes Þór Halldórsson og Birkir Már Sævarsson hafa allir lagt skóna á hilluna á síðustu vikum.
„Eftir 10 ár af ómetanlegum minningum er kominn tími á að gefa framtíðinni pláss,“ sagði Ari á Twitter.
„Er stoltur af að hafa verið hluti af þessum magnaða tíma í íslenskri fótboltasögu. Takk fyrir mig!“ bætti Ari Freyr við.
Eftir 10 ár af ómetanlegum minningum er kominn tími á að gefa framtíðinni pláss. Er stoltur af að hafa verið hluti af þessum magnaða tíma í íslenskri fótboltasögu. Takk fyrir mig! pic.twitter.com/FG1zuQH5fg
— Ari Freyr Skulason (@Skulason11) November 17, 2021