Breiðablik tapaði 2:0 fyrir úkraínska liðinu Kharkiv í riðlakeppni Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Breiðablik voru ekki endilega verri aðilinn eins og tölfræðin gefur til kynna en það eru mörkin sem telja.
Breiðablik byrjaði fyrri hálfleikinn betur og komust nær því að skora í upphafi. Hildur Antonsdóttir fékk þrjú fín færi á fyrsta korterinu en inn fór boltinn ekki. Kharkiv virtust vera í vandræðum með gervigrasið framan af leik, en þær eru vanar að spila á grasi í heimalandinu. Þær komust þó inn í leikinn eftir því sem leið á hálfleikinn og fengu algjört dauðafæri á 33. mínútu. Birgül Sadikoglu fékk þá boltann alein í teig Breiðabliks en Telma Ívarsdóttir varði mjög vel frá henni. Þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma fyrri hálfleiks kom svo Yuliia Shevchuk gestunum yfir. Olha Ovdiychuk komst þá aftur fyrir Hafrúnu Rakel Halldórsdóttur á hægri kantinum, gaf boltann glæsilega fyrir á fjærstöngina þar sem Shevchuk var mætt og kláraði vel framhjá Telmu.
Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað en á 64. mínútu kom fyrsta alvöru færið. Kharkiv spilaði sig þá frábærlega upp völlinn, settu boltann fyrir markið á Olha Ovdiychuk sem tók boltann á kassann áður en hún lagði hann í gegn á Sadikoglu. Hún virtist halda að hún væri rangstæð þar sem að afgreiðsla hennar var mjög kærulaus. Telma gerði þó mjög vel í að mæta henni og loka markinu. Tíu mínútum síðar skoraði Kharkiv svo annað mark. Þá kom löng sending inn fyrir vörn Breiðabliks sem Kristín Dís Árnadóttir rétt missti af. Ovdiychuk var fyrst á boltann, tók nokkrar snertingar áður en hún kláraði frábærlega yfir Telmu sem stóð framarlega, af u.þ.b. 25 metra færi.
Þegar rúmlega tíu mínútur voru til leiksloka gerði Ásmundur Arnarsson þjálfari Breiðabliks tvöfalda skiptingu. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir og Karen María Sigurðardóttir komu þá inn á fyrir Karitas Tómasdóttur og Alexöndru Soree. Karen kom sér í hörkufæri fljótlega eftir að hún kom inn á en skot hennar var varið af Gamze Yaman í marki Kharkiv. Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur leiksins því 0:2
Blikastúlkur fengu færin til þess að skora framan af leik en þegar leið á var eins og Kharkiv hefði þétt raðirnar og færum Blika fækkaði. Varnarleikur Breiðabliks var heilt yfir fínn fyrir utan nokkur augnablik þar sem hann opnaðist. Telma Ívarsdóttir stóð svo sannarlega fyrir sínu í markinu og Agla María Albertsdóttir var lífleg fram á við. Hildur Antonsdóttir byrjaði leikinn af miklum krafti en svo virtist draga úr henni þegar leið á.
Úrslitin þýða það að Kharkiv er nú með fjögur stig í þriðja sæti riðilsins. Þær skilja Breiðablik eftir með eitt stig á botninum.
Næsti leikur Breiðabliks er gegn Real Madrid 8. desember á Kópavogsvelli.