Ekkert verður af fyrirhuguðum vináttulandsleikjum U19-ára landsliða Íslands og Svíþjóðar í knattspyrnu kvenna sem áttu að fara fram hér á landi, dagana 27. nóvember í Kórnum í Kópavogi og 29. nóvember í Akraneshöllinni á Akranesi.
Þetta kom fram á heimasíðu KSÍ núna rétt í þessu en sænska knattspyrnusambandið tilkynnti Knattspyrnusambandinu að hætt hefði verið við Íslandsförina vegna stöðu kórónuveirufaraldursins hér á landi.
„Íslenska U19 liðið mun engu að síður koma saman og æfa, auk þess að spila æfingaleik við Breiðablik laugardaginn 27. nóvember kl. 13:00 á Kópavogsvelli,“ segir í tilkynningu KSÍ.
Þá kemur einnig fram í tilkynningu KSÍ að vonir standi til þess að hægt verði að spila vináttulandsleikina tvo á nýju ári.