Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, var spurður á blaðamannafundi í morgun hvort áfengi hefði verið haft um hönd í verkefnum landsliðsins eftir að hann tók við sem landsliðsþjálfari.
„Nei áfengi hefur ekki verið veitt í landsliðsferðum og verður ekki. Nema við verðum Evrópumeistarar. Þá verður skálað í kampavíni,“ sagði Þorsteinn Halldórsson en fram undan næsta sumar er lokakeppni EM á Englandi.
Íslenski hópurinn er nú í Hollandi þar sem fram undan er vináttuleikur gegn Japan. Á mánudaginn mætir liðið svo Kýpur á útivelli í undankeppni HM.