„Þessi ákvörðun átti sér langan aðdraganda,“ sagði Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar KSÍ, í samtali við mbl.is í dag.
Eiður Smári Guðjohnsen lét af störfum sem aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í gær eftir tæpt ár í starfi.
Stjórn KSÍ ákvað að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi Eiðs Smára en mbl.is greindi frá því í gærkvöldi að vandamál hans utan vallar hefðu átt stóran þátt í ákvörðun stjórnar KSÍ.
Þá greindi 433.is frá því að endalok Eiðs Smára hjá Knattspyrnusambandinu tengdust gleðskap hjá leikmönnum, þjálfurum og starfsliði KSÍ eftir lokaleik liðsins gegn Norður-Makedóníu í undankeppni HM 2022 í Skopje á dögunum.
„Það vita allir af því sem gerðist í sumar og við unnum það mál eftir okkar bestu samvisku,“ sagði Ómar.
„Það má ekki gleymast að þetta er persónulegt mál sem snýst um manneskjur og við viljum því ekki fara of djúpt ofan í þetta.
Þetta hefur haft sinn aðdraganda eins og ég sagði áðan og það var bara komið að þeim tímapunkti að leiðir myndi skilja,“ bætti Ómar við.