Frammistaða mín var bara fín

Sveindís Jane Jónsdóttir reyndist Japönum erfiður ljár í þúfu í …
Sveindís Jane Jónsdóttir reyndist Japönum erfiður ljár í þúfu í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Sveindís Jane Jónsdóttir átti stórleik þegar hún skoraði fyrra markið og lagði upp það síðara í 2:0 sigri íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu gegn Japan í vináttulandsleik í Almere í Hollandi í kvöld.

Þrátt fyrir að um vináttulandsleik hafi verið að ræða sagði Sveindís Jane að íslenska liðið hafi nálgast hann líkt og um keppnisleik væri að ræða.

„Við förum inn í alla leiki 100 prósent, eins og þetta séu allt keppnisleikir. Okkur langaði að vinna Japan í dag, fyrsta sigurinn okkar á móti Japan þannig að við fórum inn í leikinn eins og þetta væri bara keppnisleikur, eins og við værum að fara að fá stig fyrir þetta,“ sagði hún á Teams-fjarfundi með fréttamönnum eftir leik.

„Ég var ánægðust með hvað við vorum 100 prósent og að við keyrðum á þær. Við vorum óhræddar og gerðum það sem við lögðum upp með. Það virkaði í dag,“ bætti Sveindís Jane við.

Í markinu sem hún skoraði skeiðaði Sveindís Jane fram völlinn óáreitt og skoraði svo úr þröngu færi í teignum. Þá lagði hún upp mark fyrir Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur eftir frábæra snarpa sókn.

Spurð um hvað henni þótti um eigin frammistöðu sagði Sveindís Jane:

„Hún var bara fín. Ég fæ færi sem ég á eiginlega bara að skora úr. Ég hef gert þetta nokkrum sinnum og finn mig vel í þessari stöðu. Ég hugsaði bara að ég skyldi hlaupa upp og skjóta, það var eina hugsunin. Svo öskraði Berglind á mig þannig að hún hjálpaði mér mjög mikið, ég sendi boltann eiginlega blindandi á hana, hrós á hana.“

Auk þess að ógna í opnum leik áttu Japanir í stökustu vandræðum með að verjast löngum innköstum hennar, þar sem fjöldi mjög góðra tækifæra sköpuðust eftir að íslenskur leikmaður vann fyrsta skallaboltann. Var Sveindís Jane ósátt við að ekkert innkastanna hafi leitt til marks?

„Nei, nei. Það er bara flott að við vinnum þennan fyrsta bolta og búum alltaf til eitthvað út úr þessu. Það er jákvætt og það er alveg fínt ef við skorum einhvern tímann úr þessu. Við erum alltaf að búa eitthvað til, það skapast hætta og andstæðingarnir verða hræddir þegar það er langt innkast. Þannig að þetta hjálpar okkur alveg,“ sagði hún einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert