Japanir réðu ekkert við Sveindísi Jane

Sveindís Jane Jónsdóttir (t.v.), fór fyrir íslenska liðinu í kvöld.
Sveindís Jane Jónsdóttir (t.v.), fór fyrir íslenska liðinu í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Ísland vann afar sterkan 2:0 sigur gegn Japan þegar liðin mættust í vináttulandsleik í knattspyrnu kvenna í Almere í Hollandi í kvöld. Sveindís Jane Jónsdóttir átti stórleik í liði Íslands þar sem hún skoraði eitt mark og lagði upp annað.

Leikurinn fór rólega af stað þar sem íslenska liðið vann sig sífellt betur inn í leikinn eftir að japanska liðið hafði haldið boltanum vel í upphafi hans. Á 14. mínútu kom Sveindís Jane Íslandi yfir með fyrsta skoti leiksins.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir vann þá boltann á miðjunni, renndi honum til hliðar á Sveindísi Jane sem fékk að hlaupa óáreitt nánast frá miðju og í vítateiginn. Þar skaut hún að marki úr þröngu færi, Sadiko Ikeda í marki Japans virtist ætla að ná að verja skotið en missti það undir sig og boltinn söng niðri í fjærhorninu.

Staðan orðin 1:0 og var Ísland áfram með góð tök á leiknum.

Eftir tæplega hálftíma leik átti Agla María Albertsdóttir skot í þverslána í kjölfar langs innkasts Sveindísar Jane. Í fjölda skipta skapaðist hætta upp við mark Japana þar sem þeir áttu í stökustu vandræðum með að verjast þessu hættulega vopni hennar.

Það sem eftir lifði hálfleiks voru Japanir meira með  boltann og áttu nokkrar skottilraunir en þær voru þó allar hættulitlar.

Staðan því 1:0, Íslandi í vil, í leikhléi.

Í síðari hálfleik þróaðist leikurinn á svipaðan hátt. Japanir voru meira með boltann en íslenska liðið var ávallt hættulegt þegar það sótti.

Eftir tæplega klukkutíma leik skallaði Agla María rétt framhjá marki Japana af stuttu færi í kjölfar enn eins hættulega langa innkastins frá Sveindísi Jane.

Á 70. mínútu tvöfaldaði Ísland svo forystu sína. Glódís Perla Viggósdóttir átti þá frábæra sendingu langt fram völlinn, beint fyrir fætur Sveindísar Jane sem var á fleygiferð, lék inn á vítateig og gaf svo þéttingsfasta sendingu þvert fyrir markið með jörðinni og Berglind Björg Þorvaldsdóttir, nýkomin inn á sem varamaður, stýrði boltanum í netið af stuttu færi, 2:0.

Eftir þetta mark róaðist leikurinn töluvert og sigldi íslenska liðið að lokum fræknum og sanngjörnum tveggja marka sigri í höfn.

Frammistaða Íslands var einfaldlega frábær. Varnarleikurinn, með miðverðina Glódísi Perlu og Ingibjörgu Sigurðardóttur í broddi fylkingar, var lýtalaus.

Japanir voru meira með boltann en sköpuðu sér lítið. Sóknarleikur Íslands var aftur á móti mjög markviss þar sem hætta skapaðist nokkrum sinnum. Föstu leikatriðin, þá sérstaklega títtnefnd löng innköst Sveindísar Jane, ollu Japönum stökustu vandræðum.

Þetta var í fyrsta sinn sem Ísland vinnur Japan í kvennaflokki í knattspyrnu.

Japan 0:2 Ísland opna loka
90. mín. Selma Sól Magnúsdóttir (Ísland) á skot framhjá +1 Reynir skot fyrir utan teig, færið nokkuð þröngt og það fer framhjá nærstönginni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert