Kominn aftur í Víkina eftir stutta fjarveru

Karl Friðleifur Gunnarsson og Davíð Örn Atlason í Víkinni í …
Karl Friðleifur Gunnarsson og Davíð Örn Atlason í Víkinni í dag. mbl.is/Aron Elvar

Knattspyrnumaðurinn Davíð Örn Atlason er kominn aftur til liðs við Víking frá Breiðabliki eftir eins árs fjarveru og Karl Friðleifur Gunnarsson er alkominn til Víkinga frá Kópavogsliðinu.

Þeir eru báðir kynntir til leiks á fréttamannafundi sem nú er að hefjast í Víkinni. Karl hefur reyndar ekki farið langt því hann lék með Víkingum sem lánsmaður í ár og varð Íslands- og bikarmeistari með þeim. Hann kom einmitt til þeirra til að fylla skarð Davíðs sem hægri bakvörður liðsins.

Davíð, sem er 27 ára gamall, var óheppinn með meiðsli á þessu ári. Hann missti af fyrstu vikum tímabilsins og spilaði aðeins tíu af 22 leikjum Breiðabliks í úrvalsdeildinni þar sem hann skoraði eitt mark. Hann á annars að baki 117 leiki í deildinni, 107 þeirra fyrir Víking.

Karl, sem er tvítugur, lék 18 leiki með Víkingum í deildinni í ár og auk þess fjóra af fimm leikjum þeirra í bikarkeppninni. Hann lék sem lánsmaður með Gróttu í úrvalsdeildinni 2020 og var þá markahæsti leikmaður Seltirninga í deildinni með sex mörk í sextán leikjum en þar lék hann aðallega sem kantmaður. Hann lék hinsvegar sem miðjumaður með 21-árs landsliðinu á dögunum.

Karl og Davíð skrifuðu báðir undir þriggja ára samning og þá var Kári Árnason formlega kynntur til leiks sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi en hann hóf störf fyrr í þessum mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert