„Ótrúlega þakklát að hafa hana“

Sveindís Jane Jónsdóttir er ánægð með liðsfélaga sinn Sif Atladóttur.
Sveindís Jane Jónsdóttir er ánægð með liðsfélaga sinn Sif Atladóttur. mbl.is/Unnur Karen

Sveindís Jane Jónsdóttir fór afar fögrum orðum um reynsluboltann Sif Atladóttur, en Sveindís lék á hægri kantinum fyrir framan Sif sem var í hægri bakverði fyrir aftan hana í sterkum 2:0 sigri gegn Japan í vináttulandsleik í Almere í Hollandi í gærkvöldi.

„Það er frábært að hafa hana fyrir aftan mig, hún stýrir mér bara eins og hún væri að spila í PlayStation. Þetta er bara geggjað, ég þarf svona leikmann fyrir aftan mig þannig að það hjálpar ótrúlega mikið. Við spiluðum líka saman einn leik þar sem hún var fyrir aftan mig þegar ég var frammi í leik með Kristianstad.

Það gekk líka ótrúlega vel. Ég var bara spennt að spila með henni og er ótrúlega þakklát að hafa hana fyrir aftan mig. Það hjálpaði mjög mikið í dag,“ sagði Sveindís Jane á Teams-fjarfundi með fréttamönnum eftir leik í gærkvöldi.

Hún skoraði fyrra markið og lagði upp það síðara í frábærri frammistöðu en Sif átti sömuleiðis frábæran leik.

Sveindís Jane sagði Sif einnig hafa hjálpað sér mikið utan vallar:

„Hún hefur bara hjálpað mér með allt. Hún er frábær manneskja og er geggjuð inni á velinum líka. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að spila með henni og að hún sé bara svona geggjuð manneskja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert