Sindri á reynslu hjá Esbjerg

Sindri Kristinn Ólafsson í leik með Keflavík í sumar.
Sindri Kristinn Ólafsson í leik með Keflavík í sumar. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður Keflavíkur í knattspyrnu karla, mun næstu daga æfa með danska B-deildarliðinu Esbjerg á reynslu.

Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í dag.

Sindri Kristinn lék vel á nýliðnu tímabili þegar nýliðar Keflavíkur héldu sæti sínu í deild þeirra bestu.

Hann er eldri bróðir hins 21 árs gamla varnarmanns, Ísaks Óla Ólafssonar, sem samdi við Esbjerg í sumar.

Sindri Kristinn er samningsbundinn uppeldisfélagi sínu Keflavík út næsta tímabil en freistar þess nú að ganga í augun á þjálfaraliði Esbjerg.

Hann hefur leikið með liðinu allan sinn meistaraflokksferil, alls 122 leiki í tveimur efstu deildum Íslandsmótsins.

Þá á Sindri Kristinn 17 leiki að baki fyrir yngri landslið Íslands, þar af níu með U21-árs landsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert