Ísland vann óvæntan en verðskuldaðan sigur á Japan, 2:0, í vináttulandsleik kvenna í Almere í Hollandi í gærkvöld.
Heimsmeistararnir fyrrverandi sem höfðu unnið Ísland í öllum þremur leikjum þjóðanna til þessa voru mun meira með boltann í leiknum en sköpuðu sér sjaldan opin færi gegn þéttu íslensku liði sem síðan átti fullt af góðum sóknum, hélt boltanum vel þegar færi gafst og skapaði sér hættulegri færi í leiknum.
Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði sitt fimmta mark í tólf landsleikjum strax á 14. mínútu. Hún óð þá upp hægri kantinn og inn í vítateiginn og skaut föstu skoti undir japanska markvörðinn og í hornið fjær.
Agla María Albertsdóttir var nærri því að bæta við marki skömmu síðar þegar hún skaut í þverslá japanska marksins af stuttu færi.
Eftir talsverða pressu Japan í seinni hálfleik bætti Ísland við marki á 70. mínútu. Sveindís Jane slapp inní vítateiginn hægra megin og að endamörkum, renndi boltanum inn í markteiginn þar sem Berglind Björg Þorvaldsdóttir var mætt og skoraði, 2:0. Áttunda mark Berglindar í 56 landsleikjum.
Þorsteinn Halldórsson tefldi fram hinni þrautreyndu Sif Atladóttur sem hægri bakverði og miðað við frammistöðuna í gærkvöld gerir hún sterkt tilkall til sætis í byrjunarliðinu. Hún átti sannfærandi leik í nýrri stöðu þar sem margir hafa verið prófaðir undanfarin ár.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.