Davíð Örn Atlason er annar tveggja leikmanna sem tilkynntir voru til Íslands- og bikarmeistara Víkings á blaðamannafundi í Víkinni í dag. Davíð skrifar undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild Víkings.
Davíð er uppalinn í Víkingi en hann kemur aftur til liðsins frá Breiðabliki eftir eins árs fjarveru.
„Það er búið að vera svolítið langur aðdragandi að þessu. Þetta byrjar á því að ég sækist eftir þessu undir lok síðasta tímabils. Það var í rauninni bara vegna þess að ég var með heimþrá. Ég er þakklátur fyrir að Víkingur hafi viljað taka mig aftur. Ég vildi fara í Víking en svo tók þetta svolítinn tíma og það voru komin önnur lið inn í þetta. Undir lokin var þetta þó bara annað hvort að vera áfram í Breiðabliki eða fara heim í Víkina. Mér leið ágætlega í Smáranum og ef ég ætlaði að fara eitthvað þá var það heim.“
Karl Friðleifur Gunnarsson var einnig tilkynntur í dag en báðir eru þeir hægri bakverðir sem geta þó leyst fleiri stöður á vellinum.
„Eins og ég horfi á þetta þá eru bara nokkrir bakverðir í Víkingi. Nútímafótbolti er þannig að menn geta spilað bæði hægra megin og vinstra megin, eins og t.d. Manchester City eru að gera. Ég held að það sé 40 leikja tímabil á næsta ári svo það eru fullt af leikjum í boði, samkeppnin er af hinu góða.“
„Það liggur í augum uppi að tvöfaldir meistarar ætli sér að gera einhverja hluti á næsta tímabili. Ég er að koma úr Smáranum og ég veit að menn eru stórhuga þar, vonandi náum við að keppa við Breiðablik.“
Fleiri leikir verða í Íslandsmótinu á næsta tímabili en áður. Einnig eru Víkingar á leið í Evrópukeppni svo það er margt spennandi í gangi.
„Ég get ekki beðið eftir að mæta á fyrstu æfinguna og er mjög ánægður með að vera kominn heim.“