Agla María Albertsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Breiðabliks, segist vera að vega og meta þau tilboð sem henni hafi borist um að halda í atvinnumennsku.
„Ég er búin að fá þessa spurningu ansi oft! Ég mun einhvern tímann fara í atvinnumennsku. Það kemur allt í ljós fljótlega,“ sagði Agla María á Teams-fjarfundi með fréttamönnum á Kýpur í dag, spurð hvort hugurinn leiti í atvinnumennsku.
Þar undirbýr íslenska landsliðið sig fyrir síðasta leik ársins, gegn heimakonum í Kýpur í undankeppni HM 2023 á þriðjudag.
„Það eru alltaf einhver tilboð sem maður er að fá en það kemur í ljós fljótlega. Ég er bara að skoða það sem er að koma upp hjá mér núna og er að vega og meta ýmislegt í þeirri ákvörðun,“ bætti hún við.
Agla María, sem er 22 ára gömul, sagði það alls ekki útilokað að hún spili áfram á Íslandi á næsta tímabili. Spurð hvort reynslan af því að leika með Breiðabliki í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í haust væri til þess fallin að ýta undir vilja hennar að reyna fyrir sér erlendis sagði Agla María:
„Ég veit ekki hvort það ætti að ýta eitthvað enn frekar á mig, það sýnir meira hvað Breiðablik hefur upp á að bjóða, að vera með Meistaradeildina í boði hérna heima. Þannig að það er ekkert sem ætti að ýta enn frekar á mig, alls ekki.
En auðvitað sér maður hvað það eru frábærir leikmenn í þessum liðum sem maður er að spila á móti og það er mjög eftirsóknarvert það sem þeir eru að gera þannig að já, að því leytinu til.“