Agla María Albertsdóttir telur að íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu geti gert enn betur í síðari leik sínum gegn Kýpur í undankeppni HM 2023 á þriðjudag, en fyrri leiknum á Laugardalsvelli lauk með 5:0-sigri, sem flestir tengdir liðinu voru sammála um að hefði mátt vera stærri.
Leikurinn á þriðjudag fer fram á Kýpur, en íslenski hópurinn ferðaðist þangað frá Hollandi í gær.
„Það var langur ferðadagur hjá okkur í gær og í dag tekur raunverulega við undirbúningur fyrir leikinn við Kýpur. Þó að við höfum unnið fyrri leikinn 5:0 er klárlega gott pláss fyrir bætingar,“ sagði Agla María á Teams-fjarfundi með fréttamönnum í dag.
Sjálf vill hún gera betur og komast á blað gegn Kýpur fái hún tækifæri til, en hún fékk tvö mjög góð færi í 2:0-sigrinum gegn Japan í vináttulandsleik í Almere í Hollandi á fimmtudagskvöld en hafði ekki heppnina með sér í leiknum.
„Já það er engin spurning. Ef ég fæ tækifæri í liðinu á móti Kýpur ætla ég klárlega að reyna að skora. Það er bara svoleiðis,“ sagði Agla María.