Ég hefði getað gert betur

Guðni Bergsson sendi frá sér yfirlýsingu í dag.
Guðni Bergsson sendi frá sér yfirlýsingu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þessi mál eru alltaf erfið og ég sem formaður KSÍ bar ábyrgð á viðbrögðum sambandsins í þessum málum og miðlun upplýsinga um þau til fjölmiðla og almennings. Þar hefði ég getað gert betur,“ sagði Guðni Bergsson, fyrrverandi formaður KSÍ, í yfirlýsingu sem hann birti í dag.

Skýrsla úttektarnefndar ÍSÍ, sem var skipuð til að gera út­tekt á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna kyn­ferðisof­beld­is­mála sem tengst hafa leik­mönn­um í landsliðum Íslands, var op­in­beruð í höfuðstöðvum ÍSÍ í Laug­ar­daln­um í dag.

Þar kemur meðal annars fram að útskýringar Guðna í fjölmiðlum hafi verið villandi en í Kastljósviðtali í lok ágúst sagði hann að sambandinu hefðu ekki borist neinar tilkynningar um meint ofbeldisbrot leikmanna karlalandsliðsins.

„Ég einblíndi um of á formið og trúnað við málsaðila. Ég reyndi þó eftir bestu getu í þeim tveimur málum sem komu til minnar vitundar að finna þeim réttan farveg. Annað var leyst með sátt á milli málsaðilanna sjálfra en hitt málið er nú loks komið í farveg hjá lögreglu,“ segir ennfremur í yfirlýsingu Guðna.

Yfirlýsing Guðna Bergssonar:

Skýrsla úttektarnefndar ÍSÍ er nú komin út. Þau mál sem þar eru tekin fyrir hafa reynt á knattspyrnuhreyfinguna og alla viðkomandi. Við viljum öll berjast gegn ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist, og ekki síst kynferðis- og kynbundnu ofbeldi.

Þessi mál eru alltaf erfið og ég sem formaður KSÍ bar ábyrgð á viðbrögðum sambandsins í þessum málum og miðlun upplýsinga um þau til fjölmiðla og almennings. Þar hefði ég getað gert betur. Ég einblíndi um of á formið og trúnað við málsaðila. Ég reyndi þó eftir bestu getu í þeim tveimur málum sem komu til minnar vitundar að finna þeim réttan farveg. Annað var leyst með sátt á milli málsaðilanna sjálfra en hitt málið er nú loks komið í farveg hjá lögreglu.

Sem samfélag erum við að stíga erfið en mikilvæg skref í samtalinu um kynferðisbrot og hvernig við tökumst á við þau. Verkefnið framundan hjá knattspyrnuhreyfingunni er að taka umræðu og fræðslu um það hvernig við fyrirbyggjum kynferðisofbeldi, og að brugðist verði við þeim málum sem upp kunna að koma af festu.

Að lokum vil ég segja þetta: Við getum verið stolt af því starfi sem unnið er í knattspyrnuhreyfingunni. Á sama tíma og við erum ávallt gagnrýnin á okkar starf innan
vallar sem utan þá er líka mikilvægt að tileinka sér jákvæðni og bjartsýni sem drífur okkur áfram til betri árangurs og í þessu samhengi til betra samfélags. Ég mun ekki tjá mig frekar um skýrslu úttektarnefndarinnar að svo stöddu.

Með bestu kveðjum, Guðni Bergsson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert